Saturday, June 16, 2007

Gráhærð á Hringbrautinni

Á þessum tímapunkti hefur litla fjölskyldan stækkað, við erum nú plús einn, sem sagt enn voða lítil fjölskylda. Í lok aprílmánaðar seldi ég Sólvallagötuna (mikil sorg, helst ekki minnast á Sólvallagötuna) og keypti á Hringbrautinni. Mesta sjokkið er að minnka við sig um 61 fermeter, úr 112 fm í 51 fm! Semsagt draumur arkitektsins seldur. Og að fara hinum megin við Hringbrautina úr 101 í 107. En ég er dugleg á að minna sjálfa mig á þetta er aðeins millibils ástand, cirka eitt og hálft ár til tveggja í mesta lagi. Við fengum Hringbrautina afhenta þann 1. júní en þá hófust miklar framkvæmdir, þrír veggir brotnir niður, niðurlímt gegnheilt stafa parket rifið upp og ansi margar sorpuferðir. Í orðsins fyllstu merkingu þá hef ég verið gráhærð eftir vinnu undanfarna daga á Hringbrautinni, sökum ryks úr gömlum veggjum sem innihalda sag, hraun, vikur og múr. Allt þetta púl og verðlaunin eru sýn inn í framtíðina, ekki slæmt! Hef meira að segja tekið þá ákvörðun um að lita ekki háralitinn minn þegar gráu hárin fara að koma. Verð bara í stíl við hann Jorge minn, hann er kominn með smá grátt. Við vonum að Hringbrautin verði tilbúin í byrjun Október. En helst á dagskrá hjá okkur er að flytja eldhúsið inn í stofuna og stækka baðið á kostnað annars herbergisins. Við búum öll á æskuslóðum mínum hér á Víðimelnum í íbúðinni hans Jorge, afar notalegt og hún Rannveig M. hefur eignast 2 vinkonur hér í húsinu, þær Ragnheiði 5 ára og Ellen 3 ára. Svo í Júlí tökum við okkur smá pásu og förum til Danmerkur í eina viku. Þetta mun verða fyrsta ferð okkar Jorge saman erlendis og fyrsta utanlandsferð Rannveigar M.

Hamingja. Það besta í heimi. Langaði bara að deila því.

María hamingjusama, móðir og kærasta.

No comments: